Lög foreldraráðs:

IV. KAFLI

Foreldrar og foreldraráð.

9. gr.

Foreldrar.

Foreldrar leikskólabarna skulu gæta hagsmuna barna sinna. Þeir skulu hafa náið samráð við starfsfólk leikskóla og fylgjast með skólagöngu barna sinna og veita þær upplýsingar sem kunna að skipta máli fyrir skólastarfið og velferð barna. Foreldrar skulu jafnframt eiga rétt á upplýsingum um skólastarfið og stöðu barna sinna.

Eigi í hlut foreldrar sem tala ekki íslensku eða nota táknmál skal skóli leitast við að tryggja þeim túlkun á upplýsingum sem nauðsynlegar eru vegna samskipta foreldra og skóla samkvæmt þessari grein.



10. gr.

Samstarf foreldra og starfsfólks.

Leikskólastjóri skal stuðla að samstarfi milli foreldra og starfsfólks leikskóla með velferð barna að markmiði. Sé óskað eftir stofnun foreldrafélags skal leikskólastjóri aðstoða við stofnun þess.



11. gr.

Foreldraráð.

Kjósa skal foreldraráð við leikskóla og skal leikskólastjóri hafa frumkvæði að kosningu í ráðið. Í foreldraráði sitja að lágmarki þrír foreldrar. Skal kosning til foreldraráðs fara fram í september á ári hverju og skal kosið til eins árs í senn. Foreldraráð setur sér starfsreglur. Leikskólastjóra ber að starfa með foreldraráði. Leikskólastjóri getur sótt um undanþágu til sveitarfélags um stofnun foreldraráðs ef gildar ástæður eru fyrir hendi, svo sem vegna fámennis í leikskóla.

Hlutverk foreldraráðs er að gefa umsagnir til leikskóla og nefndar, sbr. 2. mgr. 4. gr., um skólanámskrá og aðrar áætlanir sem varða starfsemi leikskólans. Þá skal ráðið fylgjast með framkvæmd skólanámskrár og annarra áætlana innan leikskólans og kynningu þeirra fyrir foreldrum. Foreldraráð hefur umsagnarrétt um allar meiri háttar breytingar á leikskólastarfi.


Hlutverk foreldraráðs Sjónarhóls er:

Að veita umsögn um gerð skólanámskrár, skóladagatals og áætlana um fjárhagsáætlanagerð.

Að veita umsögn vegna fyrirhugaðra breytinga á starfsemi leikskólans.

Að fjalla um stefnu leikskólans og tengsl við samfélagið.

Það er ekki hlutverk ráðsins að fjalla um eða veita umsögn um málefni einstakra nemenda, foreldra eða kennara/starfsfólk leikskólans.

Foreldraráð er vettvangur foreldra til að styrkja aðkomu þeirra að málefnum leikskólans og þeim er þar gefinn kostur á að hafa bein áhrif á starfsemi leikskólans.

Foreldraráð hvetur foreldra til að nýta sér fulltrúa ráðsins og koma á framfæri hugmyndum. Foreldraráð á einn fulltrúa sem situr hjá Fræðslu- og tómstundarnefnd.