Texta hér Læsisstefna

leikskólans Sjónarhóls

2019-2030

Ábyrgð: Maríanna Jónsdóttirleikskólastjóri Sjónarhóls


Efnisyfirlit

Inngangur. 3

Fræðilegur bakgrunnur. 5

Læsisstefnan. 8

Framtíðarsýn. 8

Undirstöðuþættir læsis í leikskóla. 9

Málþættir/málþroski/meginmarkmið. 9

Lestrarmenning og fyrirmyndir. 9

Að efla orðaforða. 10

Að efla hljóðkerfisvitund. 11

Að efla hljóðavitund/málhljóð/stafaþekkingu/ritmál12

Læsishvetjandi umhverfi13

Efniviður. 13

Leiðir. 14

Skimanir og kannanir. 15

Samstarf. 16

Nemendur með annað móðurmál en íslensku og tvítyngd. 17

Kennarar, hlutverk þeirra, starfsþróun og símenntun. 17

Heimildaskrá. 18

Inngangur

Í lögum um leikskóla segir að leikskólinn sé fyrsta skólastigið í skólakerfinu og honum beri að veita börnum umönnun og menntun og búa þeim holl og örugg náms- og leikskilyrði. Þar segir einnig að eitt af meginmarkmiðum uppeldis og kennslu í leikskóla sé að veita skipulagða málörvun og stuðlað sé að eðlilegri færni í íslensku og lögð sé áhersla á að rækta hæfileika barna til tjáningar og sköpunar í þeim tilgangi m.a. að styrkja sjálfsmynd þeirra, heilbrigðisvitund, öryggi og hæfni til mannlegra samskipta (Lög um leikskóla nr. 90/2008). Aðalnámskrá leikskóla byggir á fyrrgreindum lögum og í henni kemur fram að læsi er einn af grunnþáttum menntunar. Lögð er rík áhersla á gildi leiksins ogmikilvægi þess að samþætta leikinn og grunnþætti menntunar. Leikskólarnir útfæra sjálfir hvernig þeir vinna með hæfniþætti í samræmi við aldur og þroska barna.

Námssvið leikskóla eiga m.a. að:

*Stuðla að sterkri sjálfsmynd og sjálfsþekkingu.

*Stuðla að uppbyggilegum samskiptum, vináttu og gleði.

*Efla áhuga barna á námi og hvetja þau til að læra og auka þekkingu sína, leikni og hæfni.

Í leikskóla ber að skapa aðstæður svo börn fái ríkuleg tækifæri m.a. til að:

*Tjá sig með fjölbreyttum hætti og ólíkum efniviði.

*Kynnast tungumálinu og möguleikum þess, njóta þess að hlusta á og semja sögur, ljóð, þulur og ævintýri.

*Öðlast skilning á að ritað mál og tákn hafi merkingu (Mennta- og menningarmálaráðuneyti, 2011).

Árið 2014 gaf Mennta- og menningarmálaráðuneytið út Hvítbók um umbætur í menntun og ári síðar var svo undirritaður Þjóðarsáttmáli um læsi (Mennta- og menningarmálaráðuneyti, 2014). Sveitarfélagið Hornafjörður undirritaði samninginn og setti sér m.a. þau markmið að minnsta kosti 90% nemenda í sveitarfélaginu geti lesið sér til gangs árið 2018 (Stjórnarráð Íslands, e.d.). Haustið 2014 var lagt af stað með verkefni í leik- og grunnskólunum á Hornafirði sem hafði það að markmiði að stuðla að bættum árangri í íslensku og stærðfræði. Þetta verkefni nefnist Leið til árangurs og hefur það fest sig í sessi í leikskólastarfinu. Árið 2016 var lokið við gerð menntastefnu Sveitarfélagsins Hornafjarðar sem leggur áherslu á menntun alla ævi. Í menntastefnunni er m.a. lögð áhersla á að að mynda samstæða heild í þeim tilgangi að tryggja samræmi og samhengi í menntun á milli allra skólastiga. Menntastefnan gildir til ársins 2030 og skal endurskoðuð á fjögurra ára fresti hið minnsta (Sveitarfélagið Hornafjörður, 2016).Fræðilegur bakgrunnur

Við gerð læsisstefnu leikskólans var leitað í smiðjur ýmissa fræðimanna sem rannsakað hafa m.a. tengsl málþroska og læsis og leitast er við að byggja stefnuna á þeim grunni.

Málumhverfið hefur mikil áhrif á hvernig börn eru í stakk búin fyrir lestrarnám en til þess að geta lesið þurfa þau að hafa gott vald á málskilningi og máltjáningu.Lestrarnám barnsins byrjar um leið og það fer að taka eftir málhljóðum tungumálsins, reyna að tjá sig og skilja talað mál. Málskilningur er mikilvægur undirstöðuþáttur lesskilnings þar sem orðaforði vegur þyngst (Helga Sigurmundsdóttir, e.d.).

Málskilning hafa börn þróað með sér löngu áður en formlegt lestrarnám hefst en það hjálpar þeim að tileinka sér lestur og lesskilning. Þess vegna er talið mikilvægt að þjálfa undirstöðuþætti les-skilnings, orðaforða, setningar og ályktunarhæfni áður en og samhliða því að barnið nái undir-stöðufærni í umskráningu. Færni í málskilningi er undirstaða fyrir þróun í lesskilningi en tryggir þóekki árangur. Málskilningur á talmáli eða ritmáli er flókið ferli sem felur í sér marga ólíka vits-munalega þætti (Cain & Oakhill, 2007).

Orðaforði leikskólabarna er sterkur forspárþáttur um lesskilning á efri skólastigum og gegnir hann því ótvíræðu hlutverki í mál- og læsisþróun barna, lesskilningserfiðleikar hafi fylgni við veikleika í orðaforða (Steinunn Torfadóttir, Helga Sigurmundsdóttir, Bjartey Sigurðardóttir og Ásthildur Bj. Snorradóttir, 2010).

Ályktunarhæfni: Börn með sértæka lesskilningserfiðleika eiga í vanda með að draga ályktanir um merkingu nýrra orða út frá samhengi í texta og draga ályktanir um tengsl atburða, spá fyrir um framhaldið eða lesa milli lína. Einnig kemur fram að þessi börn eiga erfitt með að muna merkingu nýrra orða sem þeim hafa verið kennd. Afleiðingþess getur verið slakur orðaforði en það er einmitt álitinn ein af meginorsökum fyrir lesskilningserfiðleikum þessara barna (Humle & Snowling, 2009).

Hljóðkerfisvitund, stafa og hljóðavinna, orðaforði og hlustunarskilningur: Sýnt hefur verið fram á að náið samband sé á milli hljóðkerfisvitundar og lesturs. Einstaklingar með góða hljóðkerfisvitund læra fyrr og geta betur tengt hljóð og bókstaf en hinir sem hafa slakari hljóðkerfisvitund (Amalía Björnsdóttir, Ingibjörg Símonardóttir og Jóhanna Einarsdóttir, 2003). Umræðan um hljóðkerfisvitund og vitund um málhljóðin leiðir einnig hugann að niðurstöðu stórrar rannsóknar frá árinu 2000 þar sem fylgst var með börnum á leikskólaaldri sem voru í áhættuhópi varðandi lestrarerfiðleika. Börnunum var skipt af handahófi í þrjá hópa. Einn hópurinn fékk kennslu í hljóðkerfisvitund, annar lærði stafina og hljóð þeirra sá þriðji fékk bland af báðum kennsluaðferðunum. Sá hópur sem kom best út þegar upp var staðið, hafði náð bestum árangri í lestri í fyrsta og öðrum bekk var sá hópur sem hafði fengið þjálfun í hljóðkerfisvitund og stafa/hljóðavinnu samhliða (Schneider, Roth, & Ennemoser, 2000). Áhersla er lögð á að byrjendakennsla í læsi eigi að innihalda þjálfun hljóðkerfisvitundar og sé hún árangursríkust þegar þjálfunin fer samhliða kennslu bókstafanna (tengsl stafs og hljóðs). Að leika með málið með rími, sögum, leikjum, orðum og hljóðum hefur góð áhrif og ýtir undir þróun hljóðkerfisvitundar (Walpole & McKenna, 2007). Mikilvægt er að leggja áherslu á þjálfun allra læsisþátta strax í leikskóla, vinnu við hljóðkerfisvitund, orðaforða, hlustunarskilning/lesskilningog þá undirþætti sem hann byggir á s.s endurheimt og ályktunarhæfni (Cain & Oakhill, 2007).

Lestur er flókin færni, margir samverkandi þættir þurfa að vera til staðar hjá einstaklingnum til að lestur geti átt sér stað. Þar fléttast saman þroski, reynsla og þekking, líkamlegt og andlegt atgervi í samspili við umhverfið (Cain, 2010). Auðugt málumhverfi skiptir því sköpum fyrir árangur í lestrarnámi og er það viðurkennt af flestum fræðimönnum (Amalía Björnsdóttir, Ingibjörg Símonardóttir og Jóhanna Einarsdóttir, 2003). Til að ná góðum tökum á lestri verða nemendur að ná tvennskonar færni. Annarsvegar verða þeir að þekkja einstök orð sjónrænt og hins vegar þurfa þeir að skilja það sem þeir lesa (Cain & Oakhill, 2007). Ef nemandi þarf að leggja hart að sér við að umskrá bókstafi í hljóð eða þekkja orð kemur það alltaf niður á lesskilningi (Adams, 2002).

Einfalda lestrarlíkanið (The simple view of reading) skýrir lestrarfærni út frá tveimur þáttum, umskráningu og lesskilningi. Líkanið byggir á því að umskráning og málskilningur séu aðskildir þættir, en að báðir skýri að stærstum hluta þá hæfni sem lesendur þurfa að öðlast til að ná lesskilningi, sem er meginmarkmið lestrar. Málskilningur, þ.e. skilningur á orðum og setningum, er undirstaða lesskilnings. Lesskilningur byggist á orðaforðaþekkingu en einnig þekkingu á merkingu og setningafræði og málfræði móðurmálsins. Skilningur á texta byggist því bæði á færni í að skilja samhengi og reynir á þekkingu þess sem les. Þótt barn hafi náð valdi á tækninni við að lesa og geti lesið upphátt er ekki endilega víst að barnið skilji það sem það er að lesa. Stundum teljum við að barn sem við tölum við skilji okkur fullkomlega þó að það geri það ekki. Barnið notfærir sér þá samhengi orða og athafna til að skilja það sem sagt er. Börn með slakan málskilning eru óhjákvæmilega með slakan lesskilning. En þau börn sem ná ekki tækninni við að lesa, skilja ekki textann vegna þess að þau geta ekki lesið hann. Það fer of mikil orka í að reyna að umskrá svo að skilningurinn fer forgörðum. Lesskilningur verður betri þegar lesturinn er ósjálfráður og áreynslulaus (Jóhanna Einarsdóttir, Ingibjörg Símonardóttir og Amalía Björnsdóttir, 2011).

Umskráning og málskilningur/hlustunarskilningur vega jafn þungt og misstyrkur í þeim þáttum leiðir til ólíkra vandamála í lestri. Nemandi sem á erfitt með umskráningu er með lesblindu, sem er afleiðing af veikleika í hljóðkerfisvitund og kemur það fram bæði í lestri og stafsetningu (Snowling, 2000). Slakur orðaforði sem er einn af grunnþáttum hlustunar/lesskilnings getur leitt til sértækra lesskilningserfiðleika (Cain & Oakhill, 2007).

Lestrarmenning, fyrirmyndir og herminám: Börn byrja mjög snemma að læra með herminámi sem er mikilvæg leið til náms og gott tækifæri fyrir foreldra og kennara til að hafa áhrif á börn og kenna þeim. Fordæmi er mjög áhrifaríkt verkfæri og mikilvægt er að hinir fullorðnu séu góðar fyrirmyndir í málnotkun og ýti þannig undir tjáningu og skilning. Hægt er meðvitað að nota eigin hegðun sem kennslutæki til að kenna málfærni. Það er mikilvægt að setja orð á allar athafnir daglegs lífs og grípa hvert tækifæri sem gefst til að tala við börn. Mikilvægt er að lesið sé fyrir börn og þau venjist því að hlusta á lesinn texta, orð séu útskýrð og spurðar spurningar út frá textanum, vegna þess að í bókum er notað fjölbreyttara málfar en í talmáli þannig byggja börn upp orðaforða sinn. Einnig er mikilvægt að þau sjái fyrirmyndir sínar taka sér bók í hönd (Christophersen & Mortweet, 2004).

Fyrrgreind fagleg rök liggja að baki þeirri ákvörðun að leggja áherslu á þjálfun allra læsisþátta og vinna samhliða að þjálfun hljóðkerfisvitundar, orðaforða, bókstafa/hljóðavinnu og hlustunarskilnings og þá undirþætti sem hann byggir á s.s endurheimt og ályktunarhæfni.

Læsisstefnan

Eftirfarandi kaflar innihalda upplýsingar um hvað læsisstefna leikskólans felur í sér, langtímamarkmið tilgreind og bent er á leiðir, efnivið/gögn sem notuð eru til að efla læsi í leikskólanum.

Framtíðarsýn

Markmið að:

 • *Læsi í leikskóla verði samofið öllum öðrum námsþáttum leikskólastarfsins og verði þar með sjálfsagður rauður þráður í leikskólagöngu barnsins.
 • *Að hefðbundnum og óhefðbundnum tjáningarleiðum sé gert jafn hátt undir höfði.
 • *Að börn hafi við lok leikskólans góða/n: orðaforða, málskilning, hljóðkerfisvitund, frásagnarhæfni, tjáningu, hljóða- og bókstafaþekkingu og færni í óhefðbundnum tjáningaleiðum.
 • *Að allir geti lesið sér til gagns við lok grunnskóla.

Eftirfylgni

 • *Læsisstefnan er lifandi skjal og gildir til 2030 og mun verða endurskoðuð árlega.
 • *Ábyrðaraðilar sjá um að endurmat sé gert, minna á og halda stefnunni lifandi.
 • *Stefnan kynnt fyrir nýju starfsfólki og farið yfir hana með öllu starfsfólki að hausti.
 • *Samstarf er á milli leik- og grunnskóla, leikskóli skilar göngum um stöðu nemenda til grunnskólans og grunnskóli skilar niðurstöðum úr Leið til læsis og lesfimi.

Undirstöðuþættir læsis í leikskóla

Læsi í leikskóla byggir á eftirfarandi undirstöðuþáttum og verður farið yfir þá í þessum kafla.

Málþættir/málþroski/meginmarkmið

Málþroski er flókið ferli og í leikskólanum er lög áhersla á að þjálfa alla þætti varðandi málþroska s.s. orðaforða, málskilning, máltjáningu, hlustun- og hlustunarskilning, hljóðkerfisvitund/leika með tungumálið á fjölbreyttan hátt. Jafnframt er lögð áhersla á að börnin kynnist hljóðum bókstafana og þekki táknmyndir þeirra. Einnig er lögð áherslu á óhefðbundnar tjáningarleiðir samhliða tungumálinu til að komið sé til móts við ólíkar þarfirnemenda. Meginmarkmið læsis í leikskólanum er að börnin hafi náð góðri færni í þessum undirstöðu þáttum við lok leikskólans.

Lestrarmenning og fyrirmyndir

Kennarar eru fyrirmyndir barna í málnotkun og mikilvægt er að þeir noti eigin hegðun sem kennslutæki til að kenna málfærni. Í leikskólanum er lögð áhersla á að:

 • *Kennarar séu góðar málfyrirmyndir og börn upplifi bóklestur sem sjálfssagðan hlut.
 • *Setja orð á allar athafnir daglegs lífs.
 • *Nýta hvert tækifæri sem gefst til að tala við börn og hlusta á þau.
 • *Lesa fyrir börn, útskýra orð og spyrja spurninga út frá texta.
 • *Kenna börnum fjölbreyttan orðaforða íslenskunnar.

Að efla orðaforða

Góður orðaforði og málskilningur er mikilvægur þáttur í að skilja talað og ritað mál. Þessir þættir eru afar mikilvægir fyrir góðan hlustunarskilning og eru sterkur forspárþáttur um lesskilning á efri skólastigum.

Til að efla orðaforða, málskilning og hlustun er:

 • *Lögð áhersla á að tala við börnin við allar aðstæður, orð sett á flestar athafnir í öllu starfi.Í samskiptum og samræðum skapast tækifæri til að ræða um það sem fangar hugann hverju sinni s.s. tilfinningar, samskipti, umhverfi o.fl.
 • *Lesið daglega, rætt um innihald textans, orð útskýrð og spurðar spurningar út frá textanum.
 • *Söngur daglega, börnum kenndar þulur og vísur.
 • *Unnið með bókina Lubbi finnur málbein einu sinni í viku, þar er mikil áhersla á orðaforða, málhljóðin og tákn fyrir málhljóðin. Þetta efni er aldursmiðað og unnið markvisst stig af stigi frá eins til sex ára. Leikir úr bókinni Markviss málörvun þjálfun hljóðkerfisvitundar, fléttast inn í Lubbastundirnar.
 • *Unnið markvisst með bókina Markviss málörvun með tveimur elstu árgöngunum einu sinni í viku. Þar er leikið á margvíslegan hátt með tungumálið.

Að efla hljóðkerfisvitund

Góð hljóðkerfisvitund er einnig mikilvæg undirstaða undir lestrarfærni og felur í sé að hafa góða tilfinningu fyrir öllum hljóðeiningum málsins t.d. að geta rímað og skipt orðum í atkvæði, sleppt úr, bætt við og/eða skipt um hljóð eða hljóðeiningar í orðum einnig að átta sig á að orð geta haft mismunandi merkingu. Hæfni við hljóðkerfisúrvinnslu hefur mikið forspárgildi varðandi lestrarerfiðleika.

Til að styrkja hljóðkerfisvitund er:

 • *Byrjað að ríma við tveggja ára aldur.
 • *Klappa samstöfur/atkvæði t.d. í nöfnum barnanna og fleiri orðum með öllum aldri.
 • *Bókin Markviss málörvun þjálfun hljóðkerfisvitundar er notuð með tveimur elstu árgöngunum, þar er lögð áhersla á: Rím – Samstöfur - Samsett orð – Hljóðgreiningu - Margræð orð - Orðhlutaeyðingu – Hljóðtengingu.

Að efla hljóðavitund/málhljóð/stafaþekkingu/ritmál

Hljóðavitund er undirþáttur hljóðkerfisvitundar og felur í sér meðvitund um minnstu merkingarbæru einingar málsins, málhljóðin. Barn með góða hljóðavitund getur t.d. greint hvaða hljóð eru í orðum og skipt einu orði út fyrir annað. Góð hljóðkerfisvitund og þá ekki síst hljóðavitund er ein af mikilvægustu forsendum þess að börn nái góðum tökum á lestrarferlinu/umskráningu, þ.e.að geta umskráð bókstaf í hljóð og öfugt. Umskráning og málskilningur eru aðskildir þættir en báðir skýra að stærstum hluta þá hæfni sem lesendur þurfa að öðlast til að ná lesskilningi sem er meginmarkmið lestrar. Hvorugur þátturinn getur án hins verið og misstyrkur þáttanna leiðir til ólíkra vandamála í lestri.

Til að efla hljóðavitund, málhljóð, stafaþekkingu og ritmál er:

 • *Lögð áhersla á sömu þætti og til að efla hljóðkerfisvitund, þ.e. leikir úr bókinni Markviss málörvun.
 • *Unnið markvisst með málhljóðin í leik, þar sem bókin Lubbi finnur málbein er grunnefni, þar er hvert málhljóð kynnt með stuttri sögu, vísum, myndum og tónlist. Bókin, hljóðdiskur, Lubbabangsi og önnur gögn sem tengjast Lubba eru á hverri deild. Bókstafur/hljóð/tákn vikunnar sýnilegt á öllum deildum, myndir af þeim sem eiga það sem fyrsta hljóð í nafninu sínu er einnig sett upp í fataklefum. Auk þess eru í salnum öll málhljóðin ásamt viðeigandi myndum.
 • *Ritmál sýnilegt, sem flestir hlutir eru merktir í augnhæð barnanna, vakin athygli á hvernig bókstafurinn lítur út og hvernig hann er skrifaður.

Læsishvetjandi umhverfi

Bækur eru börnum aðgengilegar á öllum deildum, hlutir og innanstokksmunir merktir með orði, mynd og tákni. Pappír og skriffæri aðgengileg á eldri deildum, á yngri deildum er aðgengi að því stýrt. Leikið er með bókstafi á ýmsa vegu t.d. með stafakubbum og öðrum efnivið til orðmyndunar. Bókasafn er í leikskólanum þar sem allir hafa aðgang, geta sest og skoðað bækur eða hlusta á sögur. Dæmi um smáforrit í spjaldtölvum til málörvunar eru t.d. Orðagull þar sem unnið er með orð, hugtök, liti og að fara eftir fyrirmælum, Lærum og leikum með hljóðin sem er smáforrit um málhljóðin og orð og Froskaleikirnir þar sem farið er lengra í málörvun.

Efniviður

Fjölbreyttur læsishvetjandi efniviður er notaður í leikskólanum og má nefna sem dæmi:

 • *Bækur sem notaðar eru sem markvisst kennsluefni, bækur til yndislestrar og flettibækur fyrir börn.
 • *Hljóðdiskar, tónlist, sögur og ævintýri.
 • *Spjaldtölvur og DVD diskar með málörvunarefni.
 • *Málörvunarspil, hljóðaspil og púsl.
 • *Áhöld til hreyfileikja.
 • *Pappír og ritföng.
 • *Fjölnota efniviður.

Leiðir

Ýmsar leiðir eru farnar til að vinna með læsi í leikskólanum og má þar nefna:

 • *Samverustundir/söngur/lestur/tjáning-framsögn. Kenndar vísur og þulur, spurðar spurningar út frá texta og orð útskýrð.
 • *Einstaklingslestur.
 • *Lögð áhersla á hugtök, orðtök og málshætti.
 • *Óhefðbundnar tjáningarleiðir samhliða talmáli.
 • *Snemmtæk íhlutun, brugðist við ef barn víkur frá aldursviðmiði. Notast er m.a. við Íslenska málhljóðamælinn sem er skimunartæki fyrir börn frá tveggja ára aldri, ásamt fleiri mælitækjum sem leikskólinn notar.
 • *Lögð er áhersla á að tala við börnin hlusta á þau og hvetja þau til að tjá sig.
 • *Frjáls leikur með læsishvetjandi leikefni.
 • *Skipulagðar markvissar málörvunarstundir. Þjálfun hljóðkerfisvitundar, efling orðaforða- málskilnings og hljóða/bókstafa/táknavinna.
 • *Börnin fá tækifæri til að nota skriffæri og æfa undirstöðuþætti ritunar. Þau eru hvött til að teikna og merkja myndirnar sínar með nafni eða fyrsta staf.
 • *Ritmálið sýnilegt.
 • *Leikir, hreyfileikir og málörvunarleikir í spjaldtölvum.
 • *Í vettvangsferðum er umhverfið nýtt til umræðna um það sem fyrir augu ber og vakin áhugi á ýmsum merkingum, t.d. gatna og húsa.

Skimanir og kannanir

Eftirfarandi matstæki eru notuð í leikskólanum, til að meta stöðu barna í málþroska. Niðurstöður eru nýttar til að veita snemmtæka íhlutun.

EFI-2 er málþroskaskimun sem lögð er fyrir öll börn á fjórða ári. Þessi skimun kannar málskilning og tjáningarfærni barnsins. Höfundar eru íslenskir talmeinafræðingar.

HLJÓM-2 er skimun sem lögð er fyrir öll börn á síðasta hausti en aldursbilið er fjögurra ára og níu mánaða til sex ára og eins mánaða. HLJÓM-2 metur hljóðkerfis- og málmeðvitund barna. Höfundar eru íslenskir talmeinafræðingar og aðferðafræðingur.

Íslenski málhljóðamælirinn er skimun sem lögð er fyrir öll börn frá tveggja til sex ára einu sinni á ári. Málhljóðamælirinn er smáforrit sem metur hljóðavitund/framburð og skiljanleika tals. Hann bendir á hvaða málhljóð þarf að þjálfa til að laða fram réttan framburð og metur hvort þörf er á að vísa barni til talmeinafræðings. Höfundur er íslenskur talmeinafræðingur.

Orðaskil málþroskamat byggir á orðaforðagátlista fyrir börn á aldrinum eins og hálfs til þriggja ára. Prófinu er ætlað að mæla orðaforða barnanna og hvort þau hafa náð valdi á beygingarkerfi og setningagerð málsins. Foreldrar fylla gátlistann út ef þörf þykir. Höfundur er íslenskur talmeinafræðingur og heyrnarfræðingur.

Íslenski smábarnalistinn er fyrir 15-38 mánaða gömul börn. Hann metur stöðu barna í mál- og hreyfiþroska. Mæður fylla listann út ef þörf þykir. Höfundar eru íslenskir sálfræðingar.

Íslenski þroskalistinn er fyrir þriggja til sex ára gömul börn. Hann metur stöðu barna í mál- og hreyfiþroska. Mæður fylla listann út ef þörf þykir. Höfundar eru íslenskir sálfræðingar.

Samstarf

Lögð er áhersla á að leikskólinn eigi gott samstarf við heimilin. Hann leitar eftir upplýsingum frá foreldrum og sér um að þeir fái upplýsingar frá leikskólanum um hvað verið er að gera hverju sinni, um stöðu og framfarir barna þeirra varðandi mál og læsi. Foreldrar eru hvattir til að lesa fyrir börn sín og vera lestrarfyrirmyndir þeirra. Hljóð/bókstafur/tákn vikunnar sett í fataklefa svo foreldrar geti fylgst með hvaða hljóð unnið er með hverju sinni og Lubbi fer heim með barni úr elsta árgangi yfir helgi.

Samstarf er við heilsugæslu, hjúkrunarfræðingur hefur samband við leikskólann með samþykki foreldra ef þörf er á til að fá upplýsingar um stöðu barns.

Grunnskóli og leikskóli eru í samvinnu varðandi skil skólastiga. Niðurstöðum úr HLJÓM-2 sem er athugun á hljóð og málvitund leikskólabarna er skilað til grunnskólans og niðurstöðum úr Leið til læsis, lestrarskimun í 1. bekk ásamt niðurstöðum úr lesfimiprófi við lok 1. bekkjar er skilað til leikskólans. Skipulagðar heimsóknir eru á milli elstu barna leikskólans og 1. bekkjar. Einnig eru kennaraheimsóknir á milli skólastiga.

Samstarf er við eldriborgara þar sem börn úr leikskólanum heimsækja hjúkrunarheimilið, dagvist aldraðra, dvalarheimili aldraðra og einnig er samstarf við dagþjónustu fatlaðra. Markmiðið er að börnin kynnist m.a. málfari annarra kynslóða.

Samstarfer við atvinnulífið með því að fara í vinnustaðaheimsóknir og með því upplifa börnin ólík störf og starfsheiti fullorðna fólksins.

Nemendur með annað móðurmál en íslensku og tvítyngd

Góð kunnátta í máli samfélags er grundvöllur þess að þeir sem þar búa geti tekið fullan þátt í því og nýtt sér þau tækifæri sem þar bjóðast. Það er ein megin ástæða þess að leikskólinn leggur áherslu á að börn af erlendu bergi brotin fái íhlutun við hæfi, málörvun í litlum hópum og orðaforðavinnu. Talmeinafræðingur metur stöðu þessara barna á meðan á leikskóladvöl þeirra stendur og brugðist er við niðurstöðum með snemmtækri íhlutun.

Lögð er áhersla á að foreldrar tali við börn sín og lesi fyrir þau á sínu móðurmáli, til að efla orðaforða og málþroska þeirra. Að styrkja móðurmálið er undirstaða þess að þau fái einnig góðan grunn í íslensku og nái tökum á henni. Móðurmál barnanna er miklvægt fyrir sjálfsmynd þeirra og er nauðsynleg undirstaða annarra tungumála, jafnframt er kunnátta þeirra í tungumáli skólasamfélagsins grunnurinn að velgengni þeirra í námi.

Það er mikilvægt að börn með annað móðurmál en íslensku séu í umhverfi þar sem móðurmál þeirra er sýnilegt og sjálfsagt og borin virðing fyrir því. Í leikskólanum er fjölmenningalegur barna- og kennarahópur sem er góður kostur þar sem hægt er að mæta málfarslegum þörfum flestra barna. Ef kennari talar móðurmál barns sem ekki hefur íslensku þá er leitað til hans til að auðvelda því aðlögun að leikskólanum. Myndrænt dagskipulag er á öllum deildum og tákn með tali notað, sem nýtist þessum börnum vel. Túlkaþjónusta stendur erlendum foreldrum og kennurum til boða.


Kennarar, hlutverk þeirra, starfsþróun og símenntun

Kennarar eru mikilvægar fyrirmyndir og í lykilhlutverki að byggja upp málfarslega færni barna ásamt foreldrum. Hlutverk kennara er að skapa börnum læsishvetjandi umhverfi, setja orð á hluti og athafnir, útskýra orð á fjölbreyttan hátt og hvetja börn til máltjáningar.

Kennarar eru hvattir til að sækja námskeið og ráðstefnur sem tengist málþroska og læsi, leita sér símenntunar og miðla þekkingu og reynslu sín á milli. Lögð er áhersla á framþróun og að kennarar séu virkir í að fylgjast með stefnum og straumum og tilbúnir að tileinka sér fjölbreyttar kennsluaðferðir.

Heimildaskrá

Adams, M. J. (2002). Alphabetic anxiety and explicit, systematic phonics instruction: A cognitive science perspective. New York: The Guilford Press.

Amalía Björnsdóttir, Ingibjörg Símonardóttir og Jóhanna Einarsdóttir. (2003). Þróun Hljóm - 2 og tengsl þess við lestrarfærni og ýmsa félagslega þætti. Tímarit kennaraháskóla Íslands.

Cain, K. (2010). Reading development and difficulties. Great Britain: Blackwell Publishing Ltd. Oxford: Blackwell Publishing.

Cain, K., og Oakhill, J. (Ritstj.). (2007). Children's Comprehension Problems in Oral and Written Language: A Cognitive Perspective. Challenges in Language and Literacy. New York: Guilford Publications.

Christophersen, E. R., og Mortweet, S. L. (2004). Uppeldisbókin. (Gyða Haraldsdóttir og Matthías Kristiansen þýddu). Reykjavík: Skrudda.

Helga Sigurmundsdóttir. (e.d.). Málþroski og læsi. Sótt 10. desember 2018 af lesvefurinn.hi.is: http://lesvefurinn.hi.is/forsendur_lesturs

Humle, C., & Snowling, M. J. (2009). Developmental Disorders of Language Learning and Cognition. West Sussex: Wiley-Blackwell.

Jóhanna Einarsdóttir, Ingibjörg Símonardóttir og Amalía Björnsdóttir. (2011, 20. desember). Langtímarannsókn á forspárgildi athugana á málþroska. Frá leikskólaaldri til fullorðinsára. Sótt 7. desember 2018 af Veftímarit um uppeldi og menntun: http://netla.hi.is/greinar/2011/ryn/006.pdf

Lög um leikskóla nr. 90/2008.

Mennta- og menningarmálaráðuneyti. (2011). Aðalnámskrá leikskóla 2011. Sótt 7. desember 2018 af stjornarradid.is: https://www.stjornarradid.is/verkefni/menntamal/namskrar/

Mennta- og menningarmálaráðuneyti. (2014). Hvítbók um umbætur í menntun. Reykjavík: Mennta- og menningarmálaráðuneyti.

Schneider, W., Roth, E., & Ennemoser, M. (2000). Training phonological skills and letter knowledge in children at risk for dyslexia: A comparison of three kindergarten intervention programs. Journal of Educational Psychology, 92(2), 284-295.

Snowling, M. (2000). Dyslexia. Oxford: Blackwell Publishing.

Steinunn Torfadóttir, Helga Sigurmundsdóttir, Bjartey Sigurðardóttir og Ásthildur Bj. Snorradóttir. (2010, 31. desember). Ráðstefnurit Netlu – Menntakvika 2010. Sótt 8. desember 2018 af netla.hi.is: http://netla.hi.is/menntakvika2010/alm/028.pdf

Stjórnarráð Íslands. (e.d.). Þjóðarsáttmáli um læsi. Sótt 10. desember 2018 af stjornarradid.is: https://www.stjornarradid.is/verkefni/menntamal/thjodarsattmali-um-laesi/

Sveitarfélagið Hornafjörður. (2016). Menntastefna 2016 - 2030. Sveitarfélagið Hornafjörður. Sótt 2. desember 2018 af hornafjordur.is: http://www.hornafjordur.is/media/stefnur/Menntaste...

Walpole, S., & McKenna, M. C. (2007). Differentiated reading instruction: strategies for the primary grades. New York: Guilford Press.