news

Upplýsingar um farsældarlögin og tengilið farsældar

20 Feb 2024

Farsældarlögin:

  1. Tekið hafa gildi lög sem styðja við farsæld barna. Þau eiga að sjá til þess að börn og foreldar hafi greiðan aðgang að þeirri þjónustu sem þau þurfa og að þau fái rétta aðstoð á réttum tíma og þá frá réttum aðilum. Með því að vinna í sameiningu að farsæld barna verður auðveldara fyrir börn og foreldra að fá aðstoð við hæfi.
  2. Börn og foreldrar þeirra hafa aðgang að tengilið í heilsugæslu, leikskóla, grunnskóla, framhaldsskóla eða félagsþjónustu. Það geta þau fengið aðstoð við að sækja viðeigandi þjónustu án hindrana á öllum þjónustustigum. Í flóknari málum hafa börn og foreldrar aðgang að málstjóra hjá félagsþjónustu eða þar sem þarfir barns liggja hverju sinni.
  3. Starfsfólki sem vinnur með og fyrir börn ber að vinna saman að farsæld þeirra. Starfsfólk leik-, grunn-og framhaldsskóla, félagsþjónustu, íþrótta, tómstunda eða heilbrigðisþjónustu hefur fengið aukna ábyrgð sem felur í sér að koma auga á aðstæður barna og bregðast við strax og þörf er á.

Tengiliður farsældar:

  • Öll börn skulu hafa aðgang að tengilið eftir því sem þörf krefur. Foreldrar og börn skulu hafa aðgang að upplýsingum um hver sé tengiliður í nærumhverfi þeirra og skulu milligöngulaust geta leitað aðstoðar hans. Tengiliður hafur viðeigandi þekkingu til að geta verið foreldrum og barni innan handar. Hann ráðleggur þeim og aðstoðar við að rata í gegnum kerfið og sækja þjónustu við hæfi. Tengiliður er starfsmaður mismunandi þjónustuveitenda eftir æviskeiðum barns.
  • Á meðgöngu eða ungbarnaskeiði er tengiliður barns starfsmaður heilsugæslu t.d. ljósmóðir eða hjúkrunarfræðingur í ungbarnavernd. Þegar barn hefur leikskólagöngu er tengiliðurinn í leikskóla barnsins, t.d. deildarstjóri eða sérkennslustjóri. Þegar barn hefur grunnskóla göngu er tengiliðurinn starfsmaður grunnskólans, t.d. námsráðgjafi, deildarstjóri, þroskaþjálfi eða annar starfmaður í nærumhverfi barnsins. Ungmenni sem ekki fara í framhaldsskóla eða börn sem á einhvern hátt falla á milli ofangreindra þjónustukerfa hafa aðgang að tengilið hjá félagsþjónustu sveitarfélags.

Tengiliður í leikskólanum Sjónarhóli:

  • Tengiliður í leikskólanum Sjónarhóli er: Aðalheiður Fanney Björnsdóttir sérkennslustjóri, netfangið hennar er allafanney@hornafjordur.is